Verkefni tengd samfélagslegri ábyrgð hjá Höldi-Bílaleigu Akureyrar eru mörg og skipa veigamikinn sess í rekstrinum. Fyrirtækið tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og styður sem dæmi rausnarlega við íþróttastarf á Íslandi og er í dag með styrktarsamninga við um 110 deildir íþróttafélaga um allt land. Aðgengi allra barna og unglinga að íþrótta- og tómstundastarfi er sameiginlegt verkefni samfélagsins, enda ein allra mikilvægasta forvörnin.
Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis og Rauða krossins við Eyjafjörð. Velferðarsjóðurinn heldur utan um jólaaðstoð og reglubundnar úthlutanir til efnaminni einstaklinga og fjölskyldna á starfssvæði sjóðsins sem er Eyjafjörður, frá Siglufirði til Grenivíkur.
Nú er í farvatninu nýtt úrræði innan Velferðarsjóðsins en það snýr að stuðningi vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og ungmenna frá efnaminni heimilum. Höldur-Bílaleiga Akureyrar er stoltur bakhjarl verkefnisins og gerður hefur verið þriggja ára samningur við Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis.
Markmið verkefnisins er að draga úr hættu á félagslegri einangrun og að börn og unglingar hætti í íþrótta- og tómstundastarfi vegna fjárhagserfiðleika heimilis. Hægt verður að sækja um sérstakan styrk hjá Velferðarsjóðnum vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og unglinga.
Sem dæmi um styrkhæf verkefni má nefna ferðalög vegna þátttöku í íþróttum, tómstundum og menningarstarfi, æfinga- eða skólagjöld vegna tómstundastarfs, keppnir og ferðir á vegum félagsmiðstöðva og klúbba auk búnaðar- og búningakaupa.
Opnunartímar | Hafa samband | Mínar síður | Langtímaleiga | Veftré | English
Höldur er leyfishafi Europcar International á Íslandi.
© Efni þessa vefs er varið höfundarrétti og afritun með öllu óheimil