Höldur ehf. fagnar 50 ára afmæli í ár en fyrirtækið var stofnað árið 1974.
Stofnendur fyrirtækisins voru bræðurnir Birgir, Skúli og Vilhelm Ágústssynir en upphaf að rekstrinum má þó rekja mun lengra aftur í tímann, eða til ársins 1966 þegar Skúli keypti sér fimm bíla og hóf að leigja þá út.
Ári seinna keyptu bræður hans þeir Birgir og Vilhelm sína þrjá bílana hvor og voru þeir bræður þá komnir með 11 bíla í leigu sumarið 1967 og yfirtóku þá bílaleiguna Prinz á Akureyri. Smám saman stækkaði flotinn og árið 1970 voru bílarnir orðnir um 20. Það ár keyptu þeir Ísbúðina, lítinn söluturn við Kaupvangsstræti, og byggðu verkstæðisskúr við Kaldbaksgötu til að gera við bílana. Á þessum árum voru bræðurnir allir í fastri vinnu annarsstaðar og rekstur bílaleigunnar var aukavinna.
Þann 1. apríl 1974 var fyrirtækið Höldur s.f. stofnað, og tók þá yfir allan þann rekstur sem bræðurnir voru búnir að koma sér í. Við stofnun fyrirtækisins voru bílaleigubílarnir orðnir 40 og starfsmenn þess hátt í 40. Árið 1976 keypti Höldur litla flugvél til að flytja viðgerðarmenn á þá staði þar sem bílar áttu til að bila, og var það fyrsti vísir að flugrekstri fyrirtækisins. Ári síðar, eða 1.apríl 1977 opnaði svo útibú bílaleigunnar í Reykjavík og sá Baldur elsti bróðirinn um rekstur þar allt fram til ársins 2003. Í kjölfarið fylgdu útibú víða um land.
Næstu árin og áratugina óx fyrirtækinu fiskur um hrygg. Bílafloti fyrirtækisins stækkaði jafnt og þétt, auk þess sem fyrirtækið kom að ýmiskonar rekstri og má þar nefna rekstur flugfélags, veitingastaða, verslana og veganesta svo eitthvað sé nefnt.
Í apríl 2003 skipti fyrirtækið um eigendur þegar stofnendur Hölds seldu félagið til nokkurra lykilstarfsmanna með þá Steingrím Birgisson, Bergþór Karlsson og Baldvin Birgisson sem stærstu eigendur. Í framhaldi af eigendaskiptunum var mörkuð sú stefna að setja rekstur bílaleigu og bílaþjónustu í forgrunn og seldi fyrirtækið í framhaldinu frá sér annan rekstur.
Höldur hefur alla tíð lagt mikla áherslu á góðan starfsanda og við eigendaskiptin árið 2003 sagði fráfarandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Skúli Ágústsson, á árshátíð Hölds:
„Við lítum á fyrirtækið okkar sem eina góða samheldna fjölskyldu. Við lítum ekki á okkur sem stóra eða merkilega eigendur, heldur eru allir sem starfa hjá okkur hluti af okkar fjölskyldu.“
Þetta viðhorf hefur alla tíð verið ríkjandi hjá stjórnendum Hölds og er enn þann dag í dag, þó það sé vissulega meiri áskorun að viðhalda fjölskylduböndunum þegar fjölskyldan stækkar mikið og dreifist víða um land.
Í dag rekur Höldur ehf. Bílaleigu Akureyrar, stærstu bílaleigu landsins með um 8.000 bíla í rekstri og starfsstöðvar víðsvegar um landið og starfsmannafjöldinn er á bilinu 280-350 eftir árstíma.
Höfuðstöðvar Hölds eru á Akureyri og þar rekur fyrirtækið einnig öfluga bílaþjónustu sem samanstendur af dekkjaverkstæði ásamt bílaþvottastöð við Glerártorg, bílasölu með nýja og notaða bíla að Þórsstíg 2 ásamt vel útbúnu bíla og- tjónaviðgerðaverkstæði í 2300 fermetra húsnæði að Þórsstíg 4.
Opnunartímar | Hafa samband | Mínar síður | Langtímaleiga | Veftré | English
Höldur er leyfishafi Europcar International á Íslandi.
© Efni þessa vefs er varið höfundarrétti og afritun með öllu óheimil