Bílaleiguskilmálar

Útgáfa 0624

Lágmarksaldur og ökuréttindi:

1) Lágmarksaldur leigutaka/ökumanns er 20 ár og þarf viðkomandi að hafa haft ökuskírteini í minnst 1 ár.

2) Lágmarksaldur leigutaka/ökumanns lúxusbílsbíls er 23 ár og þarf viðkomandi að hafa haft ökuskírteini í minnst 1 ár.

3) Leigutaki/ökumaður stærri bifreiða sem samkvæmt lögum hverju sinni þarf aukin ökuréttindi til að aka (meirapróf / rútupróf) skal framvísa ökuskírteini sem uppfyllir slík skilyrði við gerð leigusamnings.

Greiðsluskilmálar:

4) Framvísun kreditkorts leigutaka er skilyrði fyrir leigu sem trygging fyrir hvers konar aukakostnaði sem til getur fallið, svo sem vegna bílastæða- og veggjalda ásamt stöðusektum og sektum fyrir umferðarlagabrot. Leigutaki er þó ekki á nokkurn hátt skyldugur til þess að greiða leigu með kreditkorti sínu, heldur er framvísun þess við gerð leigusamnings einungis trygging leigusala eins og að ofan greinir.

Skyldur leigutaka:

5) Leigutaki samþykkir ákvæði leigusamnings og hefur fengið afrit af honum.

6) Leigutaki skal skila ökutækinu:

a) Ásamt öllum fylgihlutum svo sem hjólbörðum, verkfærum, skjölum, möppum og öðrum búnaði sem var í eða á bílnum við útleigu í sama ásigkomulagi og það var við móttöku að undanskildu eðlilegu sliti vegna notkunar. Leigutaki samþykkir að kostnaðarverð einstakra hluta sem ekki fylgja við skil sé skuldfært á kreditkort leigutaka. Sama á við um aukahluti sem leigðir eru með bifreiðinni.

b) Á tilskildum tíma samkvæmt samningi nema um annað verði samið síðar.

7) Brjóti leigutaki gegn ákvæðum samnings þessa, skili ekki ökutækinu á umsömdum tíma samkvæmt samningi eða láti vita um áframhaldandi leigu er leigusala eða lögreglu heimilt að taka ökutækið í sína vörslu án frekari fyrirvara á kostnað leigutaka. Áframhaldandi leiga er háð samþykki leigusala. Skili leigutaki ökutækinu 1 klst. eða síðar eftir að samningstími rennur út er leigusala heimilt að innheimta allt að sólarhringsgjaldi samkvæmt samningi. Fyrir hvern leigudag sem hefst eftir það er leigusala heimilt að innheimta samkvæmt gjaldskrá.

8) Akstur bílaleigubíla á vegum eða slóðum sem ekki hafa vegnúmer er bannaður. Stranglega bannað er að aka fólksbílum og eindrifsbílum á vegum sem eru F-merktir á opinberum kortum ásamt Kjalvegi (vegur 35) og um Kaldadal (vegur 550), slíkt er aðeins heimilt á fjórhjóladrifnum jeppum sem leigusali samþykkir til aksturs á slíkum vegum. Brot gegn grein þessari heimila leigusala að beita leigutaka sektargreiðslu sem skal samsvara fjárhæð sjálfsábyrgðar, skv. gildandi verðskrá leigusala hverju sinni. Framangreint ákvæði um sektir hefur ekki áhrif á skyldur leigutaka til greiðslu skaðabóta vegna tjóns.

9) Leigutaki ber sjálfur ábyrgð á að kynna sér færð og ástand vega á ferðum sínum ásamt veðurspám og almennum viðvörunum þar að lútandi.

10) Húsbílum skal ekki aka ef vindstyrkur mælist yfir 15m/sek á opinberum mælum Vegagerðarinnar. Virði leigutaki þessi varnaðarorð að vettugi og tjóni bifreiðina leiðir það til fullrar greiðslu á skemmdum óháð því hvaða trygging var valin.

11) Ökutækinu skal stjórnað og ekið gætilega. Einungis þeir sem skráðir eru ökumenn á framhlið leigusamnings hafa leyfi til að aka ökutækinu. Skili leigutaki ökutækinu annars staðar en á þeim stað sem leigusamningur kveður á um, er leigusala heimilt að skuldfæra kreditkort leigutaka samkvæmt verðskrá hverju sinni fyrir þeim kostnaði sem hlýst af því að sækja ökutækið. Ef ökutæki er ekki skilað með fullum eldsneytistanki er leigusala heimilt að skuldfæra kreditkort leigutaka fyrir því eldsneyti sem upp á vantar í samræmi við gildandi verðskrá leigusala. Leigutaki ber ábyrgð á tjóni sem leiðir af notkun ökutækisins og ekki fæst bætt af vátryggingarfélagi ökutækisins, þ.m.t. tjóni á ökutækinu og/eða farþegum sem rekja má til eftirtalinna þátta:

a) Aksturs utan vega eða aksturs í ám eða hvers konar vatnsföllum.

b) Ásetningsverka eða stórkostlegs gáleysis svo og notkunar ökumanns á vímugjöfum.

c) Notkunar ökutækisins er brýtur í bága við landslög og/eða ákvæði leigusamnings.

12) Sé um árekstur eða tjón að ræða skal leigutaki tafarlaust tilkynna um atburðinn til leigusala, lögreglu eða annara þeirra aðila sem sjá um skýrslutöku vegna tjóna. Það er alfarið á ábyrgð leigutaka að gerð sé tjónaskýrsla í öllum tilfellum þegar tjón verður.

13) Kílómetrafjöldi (km) sem ökutækinu er ekið meðan leigusamningur er í gildi, ákvarðast með álestri á venjulegan kílómetra-mæli sem fylgir ökutækinu frá framleiðanda. Leigutaki skal tilkynna leigusala svo fljótt sem auðið er ef kílómetra mælirinn verður óvirkur á leigutímanum.

14) Leigusali er ekki ábyrgur fyrir hvarfi muna eða skaða á þeim sem leigutaki, eða einhver annar aðili, geymdi eða flutti í eða á ökutækinu.

15) Leigutaki samþykkir að greiða leigusala samkvæmt kröfu:

a) Geymslufé er nemi áætluðum leigukostnaði. Greiði leigutaki ekki umsamda leigufjárhæð á tilskyldum tíma er leigusala heimilt að svipta leigutaka ökutækinu og rifta samningi þessum án frekari fyrirvara.

b) Öll útgjöld sem leigusali verður fyrir, ef hann þarf að koma ökutækinu til baka til aðseturs leigusala hafi það verið skilið eftir eftirlitslaust, án tillits til ástands ökutækisins, vega eða veðurs. Á sama hátt ber leigutaki þann kostnað sem til fellur vegna flutnings á ökutækinu vegna tjóns sem leigutaki hefur valdið.

16) Leigutaka er óheimilt að láta framkvæma viðgerðir eða breytingar á ökutækinu og fylgihlutum þess eða leyfa nokkra veðsetningu á því án áður fengins samþykkis leigusala.

17) Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum bílastæða- og veggjöldum ásamt stöðusektum og sektum fyrir umferðarlagabrot. Það sama gildir varðandi greiðslu skatts til hins opinbera sem leiðir af akstursnotkun ökutækisins sbr. kílómetragjald.

18) Leigusali áskilur sér rétt til að innheimta þóknun hjá leigutaka af kreditkorti hans, samkvæmt verðskrá leigusala, komi til þess að leigusali verði að greiða sektir fyrir leigutaka og/eða upplýsa yfirvöld um leigutaka vegna umferðalagabrota.

19) Leigutaka er óheimilt að nota ökutækið til flutninga á farþegum gegn greiðslu, lána það eða framleigja.

20) Ef leigutaki hunsar ábendingar leigusala um að koma með bifreið í smurningu, þjónustuskoðun eða lögbundna bifreiðaskoðun þá er leigusala heimilt að innheimta vanrækslugjald skv. gjaldskrá Hölds.

21) Ljúki leigu fyrr en umsaminn leigusamningur segir til um er leigusala heimilt að innheimta fullar eftirstöðvar leigusamnings.

Skyldur leigusala:

22) Leigusali ábyrgist afhendingu ökutækis á umsömdum tíma og að það fullnægi kröfum sem gerðar eru um það.

23) Bili ökutækið skal leigusali afhenda leigutaka sambærilegt ökutæki svo fljótt sem auðið er. Ef bilunin er minniháttar er leigutaka, með samþykki leigusala, heimilt að láta framkvæma viðgerð á ökutækinu.

24) Leigusali skal kynna leigutaka efni leigusamnings þessa og sérstaklega þær skyldur sem hann tekur á sig með undirritun samnings.

25) Leigusali skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðarmerki og reglur um bann við umferð utan vega. Jafnframt skal leigusali vekja sérstaka athygli á hættu sem stafar af dýrum á vegum.

26) Vilji leigusali takmarka notkun ökutækisins með hliðsjón af útbúnaði þess og/eða ástandi vega skal það gert skriflega við undirritun leigusamnings. Leigusali ábyrgist að vera ávallt með gilda starfsábyrgðartryggingu.

Athugið að 14 daga skilaréttur samkvæmt 16. grein laga nr: 16/2016 um neytendasamninga á ekki við hér. Sala þar sem neytandi hefur sérpantað vöru eða hún hefur verið sniðin á annan hátt að persónulegum þörfum hans, t.d með því að panta ákveðnar dagsetningar, er undanþegin rétti til að falla frá samningi samkvæmt 18. grein sömu laga.

Tryggingar:

27) Innifalið í leigugjaldi eru lögboðnar ökutækjatryggingar þ.e. ábyrgðartrygging og slysatrygging ökumanns og farþega.

28) Ábyrgðartrygging gagnvart þriðja aðila nemur þeirri upphæð sem íslensk lög kveða á um hverju sinni.

29) Leigutaki getur keypt kaskótryggingu sérstaklega. Sjálfsáhætta í hverju tjóni skal tilgreind í leigusamningi.

30) Hver sjálfsábyrgð nær aðeins til eins óhapps. Sé um að ræða fleiri en eitt tjón sem augljóslega hafa ekki átt sér stað í einu og sama óhappinu gildir hver og ein sjálfsábyrgð aðeins um eitt óhapp.

31) Það sem CDW, SCDW og ZERO tryggingar ná ekki yfir:

a) Skemmdir af ásettu ráði eða sakir stórkostlegrar óvarkárni ökumanns.

b) Skemmdir sem verða þegar ökumaðurinn er undir áhrifum áfengis, örvunar- eða deyfilyfja, eða að öðru leyti ófær um að stjórna bifreiðinni á tryggilegan hátt.

c) Skemmdir vegna kappaksturs eða reynsluaksturs.

d) Skemmdir af hernaði, uppreisn, óeirðum og óspektum.

e) Skemmdir af völdum gæludýra.

f) Brunagöt á sætum, teppum eða mottum.

g) Skemmdir er aðeins varða hjól, hjólbarða, fjaðrir, rafgeymi, gler (annað en rúður), viðtæki og upplýsingaskjái svo og tjón vegna stuldar einstakra hluta ökutækis og skemmdir sem af því stafa.

h) Skemmdir af akstri á ósléttri akbraut, svo sem á gírkassa, drifi, öðrum hlutum í eða á undirvagni ökutækisins, skemmdir á undivagni er hljótast af því að ökutækið tekur niðri á ójöfnum akbrautum, svo sem hryggjum eftir veghefla, jarðföstu grjóti á akbraut eða við akbrautarbrúnir. Sama gildir um skemmdir er verða þegar laust grjót hrekkur undir ökutækið í akstri.

i) Skemmdir vegna aksturs þar sem bannað er að aka ökutækinu, svo og við akstur á vegatroðningum, götuslóðum, snjósköflum, ís, yfir óbrúaðar ár eða læki, um fjörur, forvaða eða vegleysu.

j) Tjón af völdum þess að sandur, möl, aska, vikur eða önnur jarðefni fjúka á ökutækið, aðeins sand- og öskufoksgjald (SADW) bætir slík tjón - sjá almenna skilmála.

k) Ef ökutækið er flutt sjóleiðina bætist ekki tjón af völdum sjóbleytu.

l) Skemmdir á fólksbílum sem verða við akstur á vegum sem eru F-merktir á opinberum kortum og á vegunum um Kjöl (vegur 35) og Kaldadal (vegur 550)

m) Tjón leigusala vegna þjófnaðar á ökutækinu.

n) Vatnsskaða á ökutæki.

Að öðru leyti er vísað í almenna skilmála fyrir kaskótryggingu.

Almennir skilmálar:

32) Ábyrgðartrygging gagnvart þriðja aðila nemur þeirri upphæð sem íslensk lög kveða á um hverju sinni. Verði tjón á bifreiðinni er leigutaki að fullu ábyrgur fyrir því. Leigutaki getur tryggt sig gegn greiðsluábyrgð vegna slíkra tjóna með því að kaupa kaskótryggingu (CDW), þó þannig að eigin áhætta vegna tjóna, sem tryggingin nær til sé samkvæmt gjaldskrá leigusala og er sú upphæð tilgreind á framhlið leigusamningsins. Hafi leigutaki keypt kaskótryggingu (CDW) stendur honum til boða að kaupa súper kaskótryggingu (SCDW) og þar með að lækka enn frekar eigin áhættu kaskótryggingar (CDW). Sand- og öskufoksgjald (SADW) ver leigutaka gegn kostnaði af völdum sand- eða öskufoks. Framrúðugjald (GP) ver leigutaka gegn kostnaði sem hljótast kann af völdum brotinnar framrúðu, brotinna aðalljósa og steinkasts. Þjófnaðartrygging (THW) bætir tjón vegna skemmda á ökutækinu sem hljótast af völdum þjófnaðar á því, enda hafi ökutækið sannarlega verið numið á brott þar sem það var læst, allar rúður lokaðar og lykillinn ekki í því. Þjófnaðartrygging tekur ekki til skemmda af völdum innbrots eða til persónulegra muna leigutaka eða farþega. Engin eigin áhætta (ZERO) lækkar aðeins eigin áhættu SCDW tryggingar og SADW gjalds niður í núll. Verndin fríar því leigutaka á engan hátt bótaábyrgð brjóti hann gegn ákvæðum leiguskilmála þessa. Upplýsingar um eigin áhættu viðbótar trygginga og gjalda eru tilgreindar á heimasíðu leigusala.

33) Engin trygging né valkvætt gjald bætir skemmdir á undirvagni og hjólbörðum bifreiðar eða skemmdir vegna aksturs í ám eða vötnum né tjón vegna náttúruhamfara, CDW, SCDW, SADW, GP, THW eða ZERO bæta ekki slík tjón. Leigutaki er að fullu ábyrgur fyrir slíku tjóni, sjá nánar um tryggingar hér.

34) Skilgreindar vátryggingar í samningi þessum eru frá Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS), kt. 690689-2009, Ármúla 3, 108 Reykjavík, IS. Með undirritun samþykkir leigutaki að vátryggingarfélaginu sé tilkynnt um leigusamning þennan og aðila hans. Höldur ehf. / Bílaleiga Akureyrar er dreifingaraðili (sem aukaafurð) vátrygginga frá VÍS. Vátryggingagjöld innifela umsýslugjald og þóknun Hölds ehf. Um vátryggingar í samningi þessum gilda skilmálar VÍS nr. BA10 og BK10. Skilmálar eru aðgengilegir á heimasíðu VÍS, www.vis.is. Vöruskjöl með helstu upplýsingum um vátrygginguna (IPID) má auk þess finna á heimasíðu VÍS. Ágreining varðandi vátryggingasamninga (ökutækjatryggingu og kaskótryggingu ökutækis) og bótaskyldu VÍS má skjóta til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sjá nánar á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, www.fme.is.

Ökuritar:

35) Eftirfarandi upplýsingum er safnað saman af bílaleigunni frá sérhverju ökutæki sem búið er ökurita: Staðsetning, ökuhraði, hröðun, upplýsingar um högg (staðsetning, þyngdarafl og stefna ákomu) ásamt upplýsingum um staðsetningu og virkni tækis í bifreið. Þessum upplýsingum er safnað saman af eftirfarandi ástæðum: Greining og forvarnir vegna glataðra eða stolinna ökutækja í eigu fyrirtækisins, umsýsla vátryggingakrafna, auðkenning óleyfilegrar tilfærslu bifreiða, vegna aksturs er varðar öryggi og almannaheill, stýring bifreiðaflota. Upplýsingar um meðferð persónugreinanlegra gagna er að finna í persónuverndarstefnu Hölds.

Almenn ákvæði:

36) Leigutaki staðfestir með undirritun sinni á leigusamning þennan að hafa tekið við ökutækinu og fylgihlutum í góðu ásigkomulagi.

37) Undirritun leigutaka á leigusamning þennan er jafngild undirritun leigutaka á kreditkortafærslur vegna greiðslna þeirra er leigusali skuldfærir á kreditkort leigutaka og leigusala bar réttilega að fá vegna ákvæða leigusamnings þessa.

38) Leigusali áskilur sér rétt til verðbreytinga án sérstaks fyrirvara komi til breytingar af hálfu hins opinbera á vörugjöldum, sköttum eða öðrum gjöldum þ.m.t. ný skattheimta sbr. kílómetragjald.

39) Viðaukar og breytingar á skilmálum og ákvæðum leigusamnings skulu vera skriflegir.

40) Um samninga þá sem gerðir eru á grundvelli ofangreindra skilmála, þar með talið bótakröfur sem eftir atvikum kunna að vera gerðar, fer að íslenskum lögum. Gildir það bæði um grundvöll og útreikning bóta. Sama gildir um bótakröfur á grundvelli bóta ábyrgðar utan samninga. Rísi mál vegna leigusamnings skal málið rekið fyrir varnarþingi leigusala.

41) Bent skal á að skjóta má ágreiningsmálum samningsaðila leigusamnings til starfandi úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar.